Frambjóðendur til Stjórnlagaþings skora á kjósendur að kjósa á laugardaginn

22.11.2010 15:23

Frambjóðendur til Stjórnlagaþings skora á kjósendur að kjósa á laugardaginn

Hópur frambjóðenda til Stjórnlagaþings hefur tekið sig saman og skipað sér talsmann til að koma fram fyrir þeirra hönd í fjölmiðlum. Tilgangurinn er að hvetja kjósendur til að kjósa til Stjórnlagaþings laugardaginn 27. nóvember. Í tilkynningu frá frambjóðendum kemur fram skilningur á vanda fjölmiðla vegna fjölda frambjóðenda og jafnræðisreglunnar. Þeir óttast hins vegar að það komi niður á kjörsókn þar sem kjósendur séu vanir því að frambjóðendur fái viðamikla kynningu í fjölmiðlum síðustu vikur fyrir kosningar.

Þá kemur fram að framboð til Stjórnlagaþings sé svar við kalli Alþingis um að ljúka við að skrifa stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Nú sé röðin komin að kjósendum að mæta á kjörstað. Talsmaður hópsins er Fjalar Sigurðarson (699-6900, fjalar@mbk.is) en hann er tiltækur í viðtöl eða umræður í fjölmiðlum til að fjalla um Stjórnlagaþing, kosningafyrirkomulagið og stjórnarskrána. Tekið skal fram að Fjalar er ekki í framboði. Vefur hvatningarhópsins er www.kjostu.org

Fara í fréttalista