Hvernig virkar kosningakerfið STV?

23.11.2010 11:30

Í kosningum til Stjórnlagaþings verður notað kerfi sem nefnist Eitt færanlegt atkvæði (e. Single Transferable Vote eða STV) sem aldrei hefur verið notað á hér á landi. Kerfið er flókið og ýmislegt rangt og ónákvæmt hefur verið sagt um það. Hér fyrir neðan verður það útskýrt en í örstuttu máli eru mikilvægustu skilaboð til kjósenda eftirfarandi: Röð frambjóðenda skiptir öllu máli. Raðaðu þeim 25 sem þú vilt helst að komist á þingið þannig að sá sem þú vilt allra helst að komist inn sé efst, númer tvö sé sá sem þú vilt næst helst að komist inn og svo koll af kolli.

Kjósendur sem velja marga frambjóðendur eða allt að 25 eru líklegri en þeir sem velja færri til að velja þónokkuð mörg nöfn sem munu ekki ná inn en það skaðar aldrei atkvæðaseðil að hafa á honum nöfn frambjóðenda sem komast ekki inn vegna þess að ef frambjóðandi kemst ekki inn þá fer atkvæðið heilt yfir á næsta nafn á kjörseðlinum. Þetta styður þann boðskap að það borgar sig að raða eins mörgum og hver og einn hefur orku til.

Hvers vegna stuðlar einfalt kosningakerfi ekki að jöfnu vægi atkvæða á Stjórnlagaþinginu?

Kannski er einfaldasta kosningakerfið sem hægt er að hugsa sér fyrir Stjórnlagaþingið eftirfarandi: Merktu X við alla þá frambjóðendur sem þú vilt kjósa. Í talningunni eru öll X fyrir hvern frambjóðanda tekin saman. Þeir 25 sem fá flest X eru kosin.

Fyrsta vandamálið við þetta kerfi er að kjósendur sem velja sér marga frambjóðendur fá meira vægi en þeir sem velja færri vegna þess að þeir eru líklegir til að setja fleiri X. Það má þó komast fyrir þetta með ýmsum aðferðum, til dæmis með því að skikka alla kjósendur til að kjósa sama fjölda af nöfnum.

Þá sitja hins vegar eftir tvö stór vandamál. Fyrra vandamálið kemur til af því að í þessu kerfi dreifast atkvæði mjög misjafnt á frambjóðendur. Það má leiða líkum að því að sá sem fær flest atkvæði geti fengið meira en tíu sinnum fleiri atkvæði en sá sem lendir í 25. sæti. Samt komast báðir inn á þingið og hafa jafna vigt þar. Hitt vandamálið er að líklegt má teljast að helmingur atkvæða fari til þeirra tæplega 500 frambjóðenda sem komast ekki að á þinginu.

Hvernig á kosningakerfið sem verður notað að stuðla að jafnara vægi atkvæða?

Kosningakerfið Eitt færanlegt atkvæði (e. Single Transferable Vote eða STV) er tilraun til að taka á þessum tveimur göllum sem lýst var hér á undan. Til þess fer talningin fram í umferðum. Allra fyrst er reiknuð tala sem nefnist sætishlutur. Hún er einum stærri en 1/26 af fjölda greiddra atkvæða. Það hefur í för með sér að í mesta lagi 25 frambjóðendur geta haft atkvæðafjölda sem nær sætishlutnum sem fyrsta val. Það mun tryggja að það geta ekki fleiri en 25 náð kjöri með þessari aðferð. Grunnreglan er sú að frambjóðandi sem hefur á bak við sig atkvæðafjölda sem nær uppfyrir sætishlutinn nær kjöri.

Eins og áður segir fer talningin fram í umferðum. Í fyrstu umferð tilheyrir hvert atkvæði þeim frambjóðanda sem nefndur er sem fyrsta val. En í seinni umferðum getur atkvæðið færst milli frambjóðenda eftir ákveðnum reglum. Þannig ferðast atkvæðið niður hvern kjörseðil. Þegar það nýtist einhverjum frambjóðenda þá minnkar gildi þess fyrir frambjóðendurna fyrir neðan hann á kjörseðlinum.

Í hverri umferð er annarri hvorri þessara reglna beitt. Það er fyrst athugað hvort einhver frambjóðandi sé með atkvæðafjölda á bak við sig sem fer uppfyrir sætishlutinn. Ef svo er þá kemst hann inn og atkvæði hans færast. Ef svo er ekki, þá er þeim frambjóðanda sem er með fæst atkvæði hent út og hann kemur ekki lengur til greina við atkvæðatalninguna. Atkvæði sem tilheyrðu honum eru svo færð til næsta frambjóðanda.(Heimild:Vísindavefurinn)

Fara í fréttalista