Skýringar á dræmri kjörsókn-10 segja sitt álit

29.11.2010 12:28

 

Ýmsar skýringar hafa komið fram um af hverju kosningaþátttaka til Stjórnlagaþings var ekki meiri. Hér má finna stutta samantekt um hvað fræðimenn, ritstjórar, stjórnmálamenn, rithöfundur og frambjóðendur hafa sagt opinberlega síðustu daga um ástæður lélegrar kjörsóknar.

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor segir á visi.is ástæðurnar m.a. vera:

  1. Fyrirbærið Stjórnlagaþing sé umdeilt. Sumir töldu að þetta væri ekki forgangsverkefni á meðan aðrir sögðu það mikilvægt
  2. Kosningafyrirkomulagið hafi ekki verið vel heppnað. „Undirbúningsvinnan var ekki nægilega vönduð og kosningafyrirkomulagið var flókið. Það gerði það að verkum að kosningabaráttan var ómarkviss."
  3. Það var líka mikill kostnaður í tíma fyrir kjósendur, sem þurftu að leggja mikið á sig til að kjósa. Þetta tók langan tíma, það er enginn vafi á því að það er hluti af skýringunni. Þetta var illa lukkað kosningafyrirkomulag.
  4. Gunnar Helgi nefnir einnig að hugsanlega hafi það eitthvað að segja að Stjórnlagaþingið hafi verið ráðgefandi
  5. Þá hafi jafnvel þreyta verið í kjósendum en þrjár kosningar hafa verið á landsvísu á árinu. Fyrst var þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave í mars, sveitarstjórnarkosningar í maí og í gær Stjórnlagaþingskosningar. Það kunni að vera að ákveðin kosningaþreyta hafi verið í fólki

Stefanía Óskarsdóttir,stjórnmálafræðingur sagði ástæðurnar vera þessar í Morgunblaðinu:

  1. Dræm kjörsókn á laugardaginn stafar af reynsluleysi og litlum tengslum frambjóðenda við kjósendur
  2. Þar að auki hafi almenningsálitið verið á þann veg að frambjóðendur mættu ekki auglýsa sig. Því hafi verið erfitt fyrir kjósendur að gera upp hug sinn
  3. Stefanía líkir kosningunum við stærsta prófkjör íslandssögunnar. Mjög takmarkaðar upplýsingar var að finna um frambjóðendur og þar að auki sé óvíst að þessi rómantíska hugmynd um Stjórnlagaþing brenni á einstaklingum 
  4. Óréttmætt sé að segja að fjölmiðlar eða stofnanir á borð við Háskóla íslands hafi brugðist því það voru einstaklingar sem gáfu kost á sér og ábyrgðin hafi verið þeirra að ná í gegn
  5. Hún segir ávallt erfitt fyrir einstaklinga að koma sér á framfæri og því hafi þekktir einstaklingar oft forskot á aðra líkt og þekkist í prófkjörum
  6. Frambjóðendur þurfi að hafa samband við kjósendur sem verði að sjá einhvern ávinning í því að mæta á kjörstað
  7. Stefanía segir að það þurfi að vera einhver skipulagning eða maskína á bak við öll framboð og slíkt sé hvorki óeðlilegt, rotið né spillt. Hún segir jafnframt að það sé mikil einföldun að halda að það sé eitthvert lausnarorð í því að gera landið að einu kjördæmi eins og gert hafi verið í kosningunum á laugardaginn. Nándin við frambjóðendur er því minni sem stærra landsvæði er undir. Þannig sé til dæmis erfitt fyrir Reykvíking að taka afstöðu til frambjóðenda af Norðurlandi sem þeir hafi aldrei heyrt um

Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar sagði í Fréttum RÚV í gær:

  1. Kannski taldi fólk þetta of flókið, hafi ekki talið sig geta sett sig inn í mál 525 frambjóðenda
  2. Kannski finnist fólki stjórnarskráin fjarlæg
  3. Kannski mátti fólk ekki vera að þessu
  4. Kannski er fólk vant því að það sé hringt í það á kjördag og það sé minnt á að koma.
  5. Kannski þarf þetta stóra kosningabatterí sem alltaf er í alþingis- og sveitastjórnarkosningum þar sem hundruð milljóna er varið í auglýsingar á vegum flokkanna til þess að fólk virkilega trúi því að kosningin skipti máli.

Guðrún sagði enn fremur í Mogganum:

  1. Þær raddir hafi heyrst að vinna Stjórnlagaþingsins sé tilgangslaus þar sem Alþingi muni á endanum afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið eftir eigin hentugleika
  2. Margir segist  vera á móti kosningunum vegna mikils kostnaðar sem hefði mátt nýta í önnur mál.
  3. Kosningarnar hafi verið svolítið munaðarlausar þar sem þær áttu ekkert foreldri sem talaði fyrir þeim og hvatti fólk til að kjósa

Ólafur Þ. Stephenssen ritstjóri Fréttablaðsins segir ástæðurnar m.a. þessar í Fréttablaðinu í dag:

  1. Mörgum þótti kosningakerfið vafalaust flókið
  2. Fjöldi frambjóðenda spili inni í
  3. Fjöldinn gerði það að verkum að fjölmiðlar gátu ekki kynnt frambjóðendur með góðu móti og á milli þeirra varð ekki til nein umræða að ráði
  4. Þetta eru þriðju kosningarnar á þessu ári, örari kosningar dragi iðulega úr þátttöku
  5. Hugsanlegt sé að meirihluti kjósenda hafiekki talið þörf á að endurskoða stjórnarskrána
  6. Einhverjir hafi álitið kosninguna tómt píp og peningaeyðslu og Stjórnlagaþing ranga aðferð til að endurskoða stjórnarskrána
  7. Þá geti verið að fólk vilji aðeins fara á kjörstað þegar það snertir áþreifanlega hagsmuni en hafi litlar áhyggjur af því hvers konar grundvöllur er lagður að samfélaginu sem við búum í

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur segir ástæðurnar m.a.  í Fréttablaðinu í dag:

  1. Afstaða lögfræðinga Sjálfstæðisflokksins sem hafi aldrei heyrt hlægilegri hugmynd en að þjóðin ætti að kjósa til Stjórnlagaþings.
  2. Vera megi að að sumt fólk hafi lesið Moggann og hugsað sem svo: Já þetta er alveg satt, auðvitað á ég ekki að hafa neitt um þessi mál að segja
  3. Aðrir gætu hafið látið sér vaxa í augum hversu flókið það virtist að setja á blað allar þessar tölur og allt þetta fólk í framboði

 Daði Ingólfsson, formaður Stjórnarskrárfélagsins sagði í fréttum RÚV:

  1. Ríkisútvarpið og Háskóla Íslands hafa brugðist í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaþings
  2. Framkvæmd kosninganna og Stjórnlagaþingslögin hafi ekki verið nægilega vel kynnt af opinberum aðilum

Salvör Nordal frambjóðandi til Stjórnlagaþings sagði í Býtinu í morgun:

  1. Það vantaði stjórnmálaflokka eins og í hefðbundnum kosningum. Þá hvöttu ekki ráðamenn þjóðarinnar almenning til að kjósa. Það vantaði það skipulag sem þjóðin er vön kringum kosningum
  2. Ekki mikil menntun um stjórnarskránna á Íslandi, sárafáir sem lesa stjórnarskrána það er því ekki mikil meðvitund um stjórnarskránna

Frosti Sigurjónsson frambjóðandi Býtinu í morgun:

  1. Gríðarlegur fjöldi frambjóðenda fólk kannski ekki treyst sér til að velja
  2. Flókið að kjósa, ný kosningaaðferð
  3. Ekki brýnasta málið þessa stundina
  4. Stjórnlagaþing aðeins ráðgefandi

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í Íslandi í dag  ástæður lélegra kjörsóknar vera: 

  1. Þetta ekki rétt forgangsröð, atvinnumál og skuldamál brenna á fólki
  2. Kostnaður við Stjórnlagaþingið hafi farið fyrir brjóstið á fólki
  3. Landið eitt kjördæmi og persónukjör, það að hafi verið snúið fyrir kjósendur að setja sig inn í fyrir hvað 522 frambjóðendur stóðu fyrir
  4. Það hafi ekki verið mikill áhugi hjá fólki

Mörður Árnason þingmaður Samfylkingar nefndi þetta m.a.:

  1. Þetta er sértækt málefni og kannski ekki hægt að gera ráð fyrir að allir telji skipa máli
  2. Í fyrsta sinn sem svona kosning fór fram
  3. Of margir frambjóðendur og ekki fóru af stað kosningamaskínur
  4. Stjórnmálaflokkar hafi 500 milljónir til að kynna sig í kosningum það hafi ekki verið fyrir hendi í þessum kosningum

 

 

 

 



 

 

Fara í fréttalista