Munnlegur málflutningur vegna kæra um Stjórnlagaþingskosningar

11.01.2011 10:41

Munnlegur málflutningur vegna þriggja kæra um Stjórnlagaþingskosningarnar verður í Hæstarétti kl. 14 á morgun, 12. janúar. Hver og einn kærandi fær 15 mínútur til að flytja mál sitt og landskjörstjórn og innanríkisráðuneytið fá sama tíma til að tjá sig um kærurnar. Þá fá kjörnir þingfulltrúar á Stjórnlagaþingi tækifæri til að tjá sig í 5 mínútur hver. Gísli Tryggvason talsmaður neytenda hefur tilkynnt að hann ætli að nýta sér það. Aðrir þingfulltrúar hafa frest til klukkan 16 í dag til að tilkynna hvort þeir ætli að tjá sig um efni kæranna.  Hæstiréttur hefur nú þegar fengið skriflegar athugasemdir frá tveimur þeirra sem kærðu kosningarnar, landskjörstjórn,  innanríkisráðuneytinu og Gísla Tryggvasyni.  Afar sjaldgæft er að stjórnsýslumál séu tekin fyrir í Hæstarétti með þessum hætti.  6 dómarar taka ákvörðun í málinu en þrír lýstu sig vanhæfa vegna tengsla við frambjóðendur eða þingfulltrúa. Ekki liggur fyrir hvenær Hæstiréttur tekur ákvörðun í málinu enn gera má ráð fyrir að það verði áður en Stjórnlagaþing kemur saman í næsta mánuði.

 

Fara í fréttalista