Alþingi skipi stjórnlagaráð- álit samráðshóps

25.02.2011 09:41

Alþingi skipi stjórnlagaráð- álit samráðshóps

Tilkynning frá forsætisráðuneytinu:

Í kjölfar þess að Hæstiréttur ákvað að ógilda kosningu til stjórnlagaþings sem fram fór 27. nóvember sl. skipaði forsætisráðherra, að höfðu samráði við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, samráðshóp um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar. Var hópnum falið að greina þá stöðu sem upp var komin og meta hvaða leið væri vænlegust til þess að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Starfshópurinn var skipaður einum fulltrúa frá hverjum þingflokki auk formanns sem skipaður var af forsætisráðherra án tilnefningar. Starfshópurinn skilaði af sér í dag 24. febrúar til forsætisráðherra.

Eftir að hafa vegið og metið kosti ólíkra leiða var það niðurstaða meirihluta samráðshópsins að vænlegast sé með hliðsjón af öllum aðstæðum að Alþingi komi með ákveðnari hætti inn í endurskoðunarferlið þegar á þessu stigi með skipun ráðgefandi stjórnlagaráðs með þingsályktun og leysi þannig þann hnút sem endurskoðunarferlið sem breið sátt náðist um á Alþingi með samþykkt laga um stjórnlagaþing er komið í. Við skipun í ráðið er rétt að þeim sem hlutu mestan stuðning í kosningum þann 27. nóvember 2010 til stjórnlagaþings, sem síðar var ógilt með ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011, verði boðið að taka sæti í ráðinu sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Með þessu nýtist jafnframt sá undirbúningur allur sem lagt hefur verið í og tafir á endurskoðunarferlinu verða litlar sem engar. Þannig verði þeim sem hlutu kosningu 27. nóvember 2010, sem síðar var ógilt, falið ráðgefandi hlutverk gagnvart Alþingi.

Það er mat meirihluta samráðshópsins að með þessu sé niðurstaða og ákvörðun Hæstaréttar ekki með nokkrum hætti véfengd enda sé það fyrst og fremst skylda Alþingis og stjórnvalda að virða niðurstöðu Hæstaréttar með því að gæta þess í framtíðinni að þeir annmarkar sem upp komu við framkvæmd kosninganna 27. nóvember sl. endurtaki sig ekki við framkvæmd kosninga í framtíðinni. Ákvörðun um að leggja til þessa leið er byggð á því mati að þótt umboð þeirra sem hlutu kosningu til setu á stjórnlagaþingi sé ekki lengur fyrir hendi verði ekki dregið í efa að þeir njóti ákveðins trausts kjósenda til að taka þátt í því verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Ekkert bendir til að misferli hafi átt sér stað við kosninguna né að annmarkarnir á framkvæmdinni hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar, enda þótt þeir hafi verið verulegir að áliti Hæstaréttar.

Tillaga meirihluta samráðshópsins felur í sér að samhliða framlagningu þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs verði lagt fram frumvarp um brottfall laga um stjórnlagaþing. Verkefni stjórnlaga¬ráðs verður eftir sem áður sambærilegt því verkefni sem stjórnlagaþingi var ætlað að sinna og jafnframt er gert ráð fyrir að starfsaðstæður og starfskjör stjórnlagaráðsfulltrúa verði sambærileg.

Að meðfylgjandi áliti standa fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samráðshópnum skilar séráliti. Hægt er að lesa ákvörðun samráðshópsins og sérálitið á vef forsætisráðuneytisins.

 

Fara í fréttalista