Skýrsla stjórnlaganefndar

08.03.2011 15:35

Skýrsla stjórnlaganefndar

 

Í ljósi umræðna um útgáfu og birtingu skýrslu stjórnlaganefndar skal eftirfarandi tekið fram.  Í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing segir að stjórnlaganefnd skuli vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundi og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman. Þá skuli nefndin annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni.  

Stjórnlaganefnd hefur unnið samkvæmt lögunum. Hún hefur tekið saman umfangsmikið gagnasafn sem opið er almenningi á vefslóðinni www.stjornlagathing.is og samið skýrslu um margvísleg stjórnarskrármálefni.

Breyttar aðstæður gáfu stjórnlaganefnd tækifæri til að huga betur að framsetningu og frágangi skýrslunnar, sem verður í tveimur bindum. Fyrra bindið er í prentun en hið síðara verður tilbúið til prentunar í þessari viku.

Samkvæmt lögum nr. 90/2010 gerði stjórnlaganefnd ráð fyrir að  afhenda stjórnlagaþingi skýrsluna. Það er löggjafans að ákveða hverjum skýrslan verður nú afhent, en aldrei hefur annað staðið til en að skýrslan verði opin almenningi bæði í prentuðu máli og á netinu, eins og ítrekað hefur komið fram í viðtölum við fjölmiðla.

 

Fara í fréttalista