Stjórnlagaráð afgreiðir tillögur um lýðræðislega þátttöku almennings

27.06.2011 17:18

Stjórnlagaráð afgreiðir tillögur um lýðræðislega þátttöku almennings

Stjórnlagaráð afgreiddi tillögur C-nefndar um lýðræðislega þátttöku almennings á 14. ráðsfundi í dag. þar er gert ráð fyrir að þriðjungur þings geti skotið lagafrumvörpum í þjóðaratkvæðagreiðslu og að 15% kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög frá Alþingi. Einnig geti 2% kosningabærra manna lagt fram þingmál á Alþingi. 15% kosningabærra manna geti lagt fram á Alþingi frumvarp til laga en Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Fara frumvörpin þá í þjóðaratkvæðagreiðslu og getur Alþingi ákveðið hvort þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi eða ráðgefandi. Breytingar á stjórnarskrá skulu samþykktar á Alþingi og sendar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Allar tillögur Stjórnlagaráðs geta tekið breytingum þar til frumvarp að nýrri stjórnarskrá verður lagt fram.

 

Fara í fréttalista