Ný ákvæði um forseta Íslands samþykkt inn í áfangaskjal

01.07.2011 15:22

Ný ákvæði um forseta Íslands samþykkt inn í áfangaskjal

Stjórnlagaráð samþykkti á 15. ráðsfundi breytingartillögur C-nefndar í dómstólakafla og utanríkiskafla áfangaskjalsins um forseta Íslands.

Ráðið samþykkti m.a. breytingartillögu í dómstólakaflanum þar sem nú er kveðið á um að aðeins forseti Íslands skipi dómara, setji þá í embætti og veiti þeim lausn, án tillögu ráðherra. Tryggja skuli með lögum að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Í skýringum með ákvæðinu kemur fram að í orðalaginu „málefnaleg sjónarmið" geti til dæmis falist sjónarmið og kröfur um kynjahlutföll, fjölbreytilegan bakgrunn  dómara, tiltekna sérþekkingu eða annað sem löggjafinn telur málefnalegt.

Þá var einnig samþykkt breytingartillaga í utanríkiskafla áfangaskjalsins um forseta Íslands. Þar er nú kveðið á um að forseti Íslands komi fram fyrir hönd ríkisins sem þjóðhöfðingi og fylgi stefnu stjórnvalda í utanríkismálum. Í skýringum með ákvæðinu kemur fram að rétt hafi þótt að hafa stjórnarskrárákvæði um skyldu forseta Íslands til að fylgja stefnu ríkisstjórnar í utanríkismálum í samskiptum sínum sem þjóðhöfðingi við erlend ríki. Er það stutt þeim rökum að mikilvægt sé að hann flytji sömu skilaboð á sviði alþjóðamála  og ríkisstjórn og þing hafa mótað.  Sérstaklega á  þetta við ef um er að ræða umdeild mál eða þjóðaréttardeilu sem íslenska ríkið á aðild að.

 

Fara í fréttalista