Stjórnlagaráð afhendir frumvarp að nýrri stjórnarskrá

29.07.2011 11:37

Stjórnlagaráð afhendir frumvarp að nýrri stjórnarskrá

 

Stjórnlagaráð, afhenti forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, frumvarp að nýrri stjórnarskrá í Iðnó í dag. Frumvarpið var samþykkt einróma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins, miðvikudaginn 27. júlí síðastliðinn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarskrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Fulltrúar í Stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi Stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í ráðinu sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.

 

Frumvarpið hefst á aðfaraorðum og telur alls 114 ákvæði í níu köflum. Aðfaraorð frumvarpsins hefjast á eftirfarandi orðum: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu."


Leiðarstefin sem Stjórnlagaráð hefur haft í störfum sínum eru einkum þrjú: Valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Leitast hefur verið við að auka valddreifingu með skýrari aðgreiningu valdhafanna þriggja. Auk þess er kveðið á um aukna þátttöku almennings að ákvörðunum sem mun einnig leiða til aukinnar valddreifingar. Ráðið lagði jafnframt mikla áherslu á skýra og skiljanlega framsetningu stjórnarskrárinnar, bæði hvað varðar málfar og heildaruppbyggingu, en ekki síður að skýrt væri hver hefði vald og bæri þar af leiðandi ábyrgð í stjórnskipaninni.

Mannréttindakaflinn hefur verið endurnýjaður og heitir nú Mannréttindi og náttúra. Jafnræðisreglan er ítarlegri en í núgildandi stjórnarskrá og sérstaklega er kveðið á um að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með reisn. Kveðið er á um að öllum börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Með áherslu á aukið gegnsæi og upplýsingaskyldu opinberra aðila er leitast við að tryggja mun betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Réttur fjölmiðla er settur í stjórnarskrá og upplýsingafrelsi er aukið en sérstaklega er kveðið á um að öllum sé frjálst að safna og miðla upplýsingum og að stjórnsýsla skuli vera gegnsæ.

Meðal fleiri nýmæla í kaflanum um Mannréttindi og náttúru eru ákvæðin um náttúru Íslands og umhverfi og auðlindaákvæði, þar sem kemur fram að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þá kemur fram nýtt ákvæði um að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á.

Við endurskoðun á stjórnskipaninni var áhersla lögð á að dreifa valdi og auka á aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Margar breytingar eru gerðar sem hafa í för með sér bætt löggjafarstarf þingsins. Sérstök áhersla var lögð á að efla eftirlits- og fjárstjórnarhlutverk þingsins og fjölmörg nýmæli má finna í kafla um Alþingi sem hafa það markmið að leiðarljósi. Þá er talsvert um ákvæði er kalla á samþykkt aukins meirihluta þingmanna, svo sem kosning forseta Alþingis, sem ætlun er að auki samráð milli meiri- og minnihluta þingmanna. Ný stofnun, Lögrétta, sem hefur það hlutverk að skoða hvort lög standist stjórnarskrá er sett á fót.

Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu sem tryggja rétt almennings til lýðræðislegrar þátttöku að ákvörðunum, en samkvæmt frumvarpinu geta tíu af hundraði kjósenda krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Með þessum breytingum mun Ísland vera meðal þeirra þjóða sem tryggir sem best rétt almennings til þátttöku í opinberum ákvörðunum, eða beint lýðræði.

Kosningarerfið er tekið til heildarendurskoðunar. Fram kemur að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt. Kveðið er á um að kjósandi geti með persónukjöri valið frambjóðendur þvert á lista en heimilt sé að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka. Kjördæmi skuli vera eitt til átta.

Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil samkvæmt frumvarpinu og enginn ráðherra getur gegnt sama embættinu lengur en í átta ár. Þá kýs Alþingi sér forsætisráðherra með beinni kosningu í kjölfar þingkosninga en með því tekur þingræðið á sig beina mynd. Þá er nýmæli fólgið í því að með vantrauststillögu á forsætisráðherra þurfi að fylgja tillaga um eftirmann hans. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og varamaður tekur sæti hans. Ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn eru mun ítarlegri en í núverandi stjórnskipun og kveðið er á um að ríkisstjórn sé fjölskipað stjórnvald og taki ákvörðun sem slík í mikilvægum og stefnumarkandi málum. Þá er kveðið á um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart þinginu og tryggt að hæfni og málefnaleg sjónarmið skuli ráða við embættisveitingar.

Nýr kafli um dómstóla er lagður fram en Hæstiréttur Íslands er skilgreindur æðsti dómstóll ríkisins. Nánar er kveðið á um lögsögu dómstóla, skipan dómara og sjálfstæði þeirra í frumvarpinu.

Áhersla er lögð á aukna sjálfstjórn sveitarfélaga. Nálægðarregla er lögð fram sem felur í sér að þeir þættir opinberrar þjónustu sem þykja best fyrir komið í héraði skuli vera á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra. Loks skuli haft samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

Sérstakur kafli er settur fram um utanríkismál. Kveðið er á um að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skuli ávallt vera afturkræft. Þá kemur fram að samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skuli ákvörðunin ávallt borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu skuli vera bindandi. Þá er kveðið á um að ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skuli háð samþykki Alþingis.

Fulltrúar í Stjórnlagaráði eru fjölbreyttur hópur með ólíkar skoðanir, menntun og reynslu. Hver og einn hefur tekið afstöðu til mála á eigin forsendum. Ráðið hefur haft skýrslu stjórnlaganefndar til hliðsjónar í starfi sínu, svo og niðurstöður Þjóðfundar 2010. Þá hefur almenningur átt greiðan aðgang að verkinu, fyrst og fremst með athugasemdum, sem urðu alls um 3600 og innsendum erindum sem urðu um 370 á vefsetri ráðsins. Þannig hefur varðveist sú hugmynd að almenningur kæmi að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Frumvarp Stjórnlagaráðs hefur því mótast smám saman í samræðum milli fulltrúa innbyrðis og opnum skoðanaskiptum við samfélagið. Stjórnlagaráð afhendir nú þingi og þjóð frumvarpið. Skýringar með frumvarpinu verða afhentar Alþingi í næstu viku og endurspegla umræðuna innan ráðs og utan.

Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum um stjórnarskrármál haldi áfram.

 

Fara í fréttalista