Hvað er þjóðfundur?

Orðið þjóðfundur hefur í íslensku máli haft tvíþætta merkingu. Ýmist hefur orðið þjóðfundur merkt samkomu (oftast stjórnlagaþing) sem skipað er kjörnum fulltrúum eða það hefur verið notað yfir almenna fundi eða samkomur um mikilvæg þjóðfélagsmál. Þjóðfundur í merkingunni stjórnlagaþing hefur aðeins einu sinni verið haldinn á Íslandi en það var sumarið 1851. Tilgangur þess fundar var að samþykkja ný stjórnskipunarlög fyrir Ísland. Stjórnlagaþingið sem kemur saman á næsta ári verður því annað stjórnlagaþing sem haldið er hér á landi. Þjóðfundur í merkingunni almenn samkoma um tiltekið málefni hefur hins vegar verið algengari og má nefna að á Þingvöllum hafa verið haldnir fundir sem kallaðir jafa verið þjóðfundir, sbr. fundur um fánamálið 1907 og fundur um bindindismál 1937. Þjóðfundurinn sem haldinn var í Reykjavík 2009 er ýmsu leyti af sama meiði. Fundurinn þótti takast afar vel en þar voru rædd grundvallargildi samfélagsins og leið þjóðarinnar til sóknar, nýsköpunar og bjartsýni. Sá þjóðfundur sem nú er boðað til byggir á svipaðri grasrótarhugsun, en umræðuefnið er nú þrengt og snýst um sjálfa stjórnarskrána. Þess er vænst að um þúsund gestir, valdir af handahófi úr þjóðskrá, taki þátt í fundinum. Þannig er honum ætlað að endurspegla vitund þjóðarinnar.

Tilgangur þjóðfundar

Tilgangur Þjóðfundar 2010 var fyrst og fremst að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins, stjórnarskrá og breytingar á henni.Stjórnlaganefnd mun síðan vinna úr niðurstöðum Þjóðfundar og leggja fyrir stjórnlagaþing þegar það kemur saman í febrúar 2011, ásamt eigin hugmyndum.

Hlutverk Stjórnlagaþings er að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33, 17. júní 1944 og semja frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga. Frumvarpið verður síðan sent Alþingi til meðferðar, eins og núgildandi stjórnarskrá kveður á um. Þátttakendum á Þjóðfundi gefst þannig einstakt tækifæri til að hafa áhrif á stjórnarskrá lýðveldisins með hugmyndum sínum og almennum umræðum. .

Hvernig voru þátttakendur valdir?

Lög um Stjórnlagaþing, nr. 90/2010, kveða á um að fulltrúar á þjóðfundi skuli vera um 1000 talsins. Við val á þjóðfundarfulltrúum eru eftirfarandi viðmiðanir lagðar til grundvallar samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna:

  • 1. Fulltrúar á þjóðfundi voru valdir með slembiúrtaki (tilviljunarúrtaki) úr Þjóðskrá.
  • 2. Úrtakið var bundið við þá sem eiga kosningarrétt til stjórnlagaþings og lögheimili á Íslandi.
  • 3. Úrtakið endurspeglaði eðlilega búsetu- og kynjaskiptingu.

Þar sem gera mátti ráð fyrir að sumir þeirra sem lenda í úrtakinu hefðu ekki hug á þátttöku var tekin ákvörðun um að taka fimm 1000 manna úrtök á sama tíma. Ákveðið var að þeir 1000 einstaklingar sem væru í fyrsta úrtakinu skyldu teljast aðalfulltrúar. Aðrir væru skilgreindir sem varafulltrúar. Bæði aðalfulltrúar og varafulltrúar fá bréf um að þeir hafi valist til setu á þjóðfundi, ýmist sem aðal- eða varafulltrúar. Miðað er við að varafulltrúar skrái sig til þátttöku jafnt sem aðalfulltrúar, því mikilvægt er að fyrir liggi hvaða varafulltrúar gefi kost á sér til setu hafi aðalfulltrúi ekki tök á að sitja þjóðfundinn. Með þessu fyrirkomulagi var því tryggt að falli aðalfulltrúi frá þátttöku var hægt að kalla til varafulltrúa sem samsvaraði honum með tilliti til kyns og búsetu, enda hafi hann þegar lýst yfir vilja til þátttöku með skráningu, sem samsvarar honum með tilliti til kyns og búsetu.

Fjárhagslegt uppgjör vegna Þjóðfundar 2010

Nú liggur fyrir endanlegt fjárhagsuppgjör vegna Þjóðfundar 2010 og ljóst að kostnaður varð um 63.5 milljónir króna sem er aðeins um 70 prósent af kostnaðaráætlun sem nam 91.7 milljónum króna.

Hvað verður gert við niðurstöður þjóðfundarins?

Sjö manna sjálfstæðri stjórnlaganefnd er ætlað að vinna úr upplýsingum sem safnast á Þjóðfundi og afhenda Stjórnlagaþingi þegar það kemur saman.

Hægt verður að nálgast allar helstu niðurstöður þjóðfundarins á þessari vefsíðu.

Lög um Stjórnlagaþing

Alþingi setti lög um Stjórnlagaþing nr. 90/2010 þann 16. júní s.l.. Í þeim er kveðið á um boðun til ráðgefandi Stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33, 17.júní 1944. Hægt er að nálgast lögin hér.

Undirbúningur

Tvær nefndir hafa verið skipaðar til að undirbúa stjórnlagaþingið sem haldið verður í febrúar 2011. Þessar nefndir eru stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd stjórnlagaþings:

Stjórnlaganefnd

Stjórnlaganefnd var skipuð á fundi Alþingis 16. júní 2010 samtímis því að lögin um stjórnlagaþing voru samþykkt. Nefndinni er ætlað að vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum 2010 og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman. Nefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.

Stjórnlaganefnd skipa:

Skrifstofa stjórnlagaþings og nefndarinnar er til húsa í Borgartúni 24. 3. h. Sími: 551-0214. netfang nefndarinnar er stjornlaganefnd@stjornlagathing.is og skrifstofunnar: skrifstofa@stjornlagathing.is

Undirbúningsnefnd stjórnlagaþings

Undirbúningsnefndin var skipuð af forsætisnefnd Alþings og er ætlað að undirbúa stofnun og starfsemi stjórnlagaþings ásamt undirbúningi þjóðfundarins. Þá er undirbúningsnefndinni ætlað að undirbúa kynningu á starfsemi þingsins, setja upp vefsíðu þess, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna þingsins.

Undirbúningsnefndina skipa: