Björg Thorarensen

Björg Thorarensen

Björg Thorarensen er prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1985, embættisprófi í lögfræði frá lagadeild HÍ 1991 og meistaraprófi í lögum frá Edinborgarháskóla 1993 í stjórnskipunarrétti, mannréttindum og Evrópurétti. Á námsárum sínum var hún fréttamaður á Tímanum, DV og fréttastofu RÚV.

Björg var lögfræðingur og skrifstofustjóri á löggæslu- og dómsmálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins og síðar á lagaskrifstofu ráðuneytisins frá 1991-2002. Hún var stundakennari við lagadeild HÍ frá 1994 og hefur verið prófessor frá 2002. Björg var forseti lagadeildar frá 2007-2010. Hún hefur ritað fjölda fræðigreina og haldið fyrirlestra um þau efni á innlendum og erlendum vettvangi og er m.a. höfundur fræðiritsins Stjórnskipunarréttur: Mannréttindi sem kom út árið 2008. Björg átti sæti í sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar 2005-2007 og var formaður ráðgjafarhóps ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskránni árið 2009. Hún hefur verið formaður stjórnar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands frá 2002 og formaður sérfræðinganefndar Evrópuráðsins í Strassborg um réttarfar í mannréttindamálum (DH-PR) frá 2009. Hún er varaformaður samninganefndar Íslands vegna aðildarviðræðna við ESB.

Til baka í lista