Spurningar og svör

Af hverju er Þjóðfundurinn 2010 haldinn?

Alþingi samþykkti þann 16. júní 2010 lög nr. 90/2010 um ráðgefandi Stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Samkvæmt lögunum skal halda þjóðfund um stjórnarskrármálefni áður en kosið verður til þingsins. Á fundinum verður kallað eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Þjóðfundurinn er þannig undanfari stjórnlagaþingsins.

Þjóðfundur 2010 byggir að nokkru á þeirri reynslu sem fékkst á Þjóðfundinum 2009, en að þessu sinni er umræðuefnið stjórnarskrá Íslands.

Hvað á að koma út úr þessum fundi?

Samkvæmt lögunum er þjóðfundinum ætlað að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Því er ógerlegt að segja fyrir um niðurstöðu hans. Stjórnlaganefnd mun vinna úr upplýsingum sem fram koma á fundinum og skila þeim til stjórnlagaþingsins

Er hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu á fundinum?

Búast má við skiptum skoðunum á þúsund manna þjóðfundi um stjórnarskrá. Þátttakendum verður skipað við borð með borðstjóra. Umræðuefni munu mótast á hverju borði eftir áhuga manna þar. Sérþjálfaður borðstjóri stýrir umræðum, gætir þess að allir fá jöfn tækifæri til að tjá sig og koma hugmyndum sínum á framfæri. Unnið er eftir sérstöku kerfi sem auðveldar að draga megi fram meginþætti, en jafnframt halda öllum sjónarmiðum til haga. Borðstjóri safnar saman niðurstöðum þátttakenda, sem eru síðan sendar til rafrænnar úrvinnslu í gagnaveri. Sú úrvinnsla sýnir hverjar megin niðurstöður fundarins eru.

Er unnt að stýra niðurstöðu fundarins?

Aðferðafræðin sem er notuð á að tryggja að niðurstöður fundarins endurspegli sjónarmið þeirra sem sækja fundinn, ekki þeirra sem undirbúa fundinn. Sérþjálfaðir borðstjórar verða á hverju borði sem sjá til þess að allir við borðið fái jöfn tækifæri til að tjá sig og að öll sjónarmið komist að.

Hvað kostar fundurinn?

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna fundarins nemi í heild sinni um 100 milljónum króna. Stærstu liðir kostnaðarins er þóknun til þátttakenda og ferða- og uppihaldskostnaður þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, aðkoma sérfræðinga, tæknimál, leiga húsnæðis, veitingar á fundinum o.s.frv.

Hver greiðir kostnaðinn?

Ríkissjóður greiðir kostnaðinn við undirbúning og framkvæmd stjórnlagaþings samkvæmt lögum nr. 90/2010, þ.m.t. kostnað vegna Þjóðfundar sem er undanfari Stjórnlagaþingsins.

Hvernig er undirbúningur þjóðfundar?

Með lögum um Stjórnlagaþing nr. 90/2010 sem Alþingi setti 16. júní s.l. er gert ráð fyrir skipan tveggja nefnda. Þriggja manna undirbúningsnefnd stjórnlagaþing undirbýr stofnun og starfsemi þingsins ásamt undirbúningi þjóðfundar og sjö manna sjálfstæð stjórnlaganefnd sem ætlað er að standa að þjóðfundi um stjórnarskrá, vinna úr upplýsingum fundarins og afhenda Stjórnlagaþingi þegar það kemur saman.

Stjórnlaganefnd skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til Stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá þegar það kemur saman.

Hverjir fá að taka þátt í Þjóðfundinum 2010?

Gert er ráð fyrir að um 1000 gestir taki þátt í fundinum. Þeir eru valdir af handahófi úr þjóðskrá meðal þeirra sem búsettir eru hér á landi og verða á kjörskrá fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings (þ.e. 18 ára og eldri á kosningadaginn 27. nóvember 2010). Þess skal gætt,að í úrtakinu sé eðlilegt hlutfall búsetu manna á landinu öllu og sem jöfnust kynjaskipting.

Kemst ég á þjóðfundinn þótt ég sé ekki í úrtakinu?

Nei, aðeins þeir sem valdir verða af handahófi. Í grunnúrtakinu eru 1000 einstaklingar sem við köllum aðalfulltrúa. Til að mæta forföllum voru tekin fjögur samskonar úrtök,alls 4000 einstaklinga, þannig að hver aðalfulltrúi á sér fjóra ákveðna varamenn með sams konar búsetu og kyn. Eigi aðafulltrúi ekki kost á að taka þátt í fundinum, verður haft samband við varamann númer eitt og síðan koll af kolli. Ef enginn varamannanna hefur tök á að mæta, verður sæti viðkomandi autt á fundinum.

Geta frambjóðendur til Stjórnlagaþings tekið þátt í Þjóðfundinum?

Þjóðfundinn 6. nóvember sitja eingöngu einstaklingar sem lentu í slembiúrtaki sem tekið var úr þjóðskránni og fengu þeir þar með boð um setu á fundinum. Ef slíkur aðili hefur síðan ákveðið að bjóða sig fram til stjórnlagaþings hefur það engin áhrif á seturétt hans á Þjóðfundinum, en honum er algjörlega óheimilt að kynna framboð sitt þar á nokkurn máta. Þjóðfundurinn er að öðru leyti lokaður fundur og ekki opinn frambjóðendum. Fjölmiðlar fá þó aðgang að fundinum með þeim skilyrðum að þeir trufli ekki þátttakendur.

Hvernig voru borðstjórar/lóðsar valdir?

Leitað var í smiðju undirbúningshóps þjóðfundarins 2009 og var 10 aðilum sem voru svæðisstjórar þar boðið hlutverk svæðisstjóra á Þjóðfundi 2010. Það var svo fyrsta verkefni svæðisstjóranna að finna borðstjóra á sitt svæði og var þeim uppálagt að leita til reyndra borðstjóra sem þeir unnu með á síðasta þjóðfundi (2009) eða á fundum sem þeir hafa komið að síðan þá. Fjöldi borðstjóra var 165 á þjóðfundinum 2009 en verða 125 á þessum þjóðfundi. Borðstjórarnir verða síðan þjálfaðir sérstaklega í umræðuefni og fundaflæði þjóðfundar 2010.

Hvernig voru borðstjórar/lóðsar valdir?

Leitað var í smiðju undirbúningshóps þjóðfundarins 2009 og var 10 aðilum sem voru svæðisstjórar þar boðið hlutverk svæðisstjóra á Þjóðfundi 2010. Það var svo fyrsta verkefni svæðisstjóranna að finna borðstjóra á sitt svæði og var þeim uppálagt að leita til reyndra borðstjóra sem þeir unnu með á síðasta þjóðfundi (2009) eða á fundum sem þeir hafa komið að síðan þá. Fjöldi borðstjóra var 165 á þjóðfundinum 2009 en verða 125 á þessum þjóðfundi. Borðstjórarnir verða síðan þjálfaðir sérstaklega í umræðuefni og fundaflæði þjóðfundar 2010.

Ég fékk boð á fundinn sem varafulltrúi - þarf ég þá að skrá mig?

Já, varafulltrúar eru einnig beðnir um að skrá sig og láta þar með vita hvort þeir muni eiga kost á að sækja fundinn ef til þeirra verður leitað (og einnig ef þeir eiga ekki kost á að taka þátt í fundinum). Þetta auðveldar vinnuna við að hafa samband við varafulltrúa ef aðalfulltrúi á ekki kost á að mæta eða forfallast.

Hvernig verða umræður á fundinum?

Á fundinum verður þátttakendum skipað við hringborð, þar sem hlutlaus borðstjóri stýrir umræðum eftir ákveðnu skipulagi. Hlutverk hinna níu þátttakenda við borðið er að tjá hugmyndir og skoðanir sínar um tiltekin umræðuefni og þróast svo eftir áhuga manna á hverju borði. Hver þátttakandi fær tíma til að tjá sig um viðfangsefnið. Ekki er ætlast til að menn ræði sérstaklega um skoðanir eða hugmyndir annarra í hópnum, heldur eiga þeir fyrst og fremst að lýsa eigin viðhorfum. Þátttakendur þurfa ekki að hafa sérstaka þekkingu á stjórnarskránni eða skyldum málum, heldur er ætlunin að fá fram þau meginsjónarmið sem Íslendingar vilja að samfélag þeirra byggist á. Borðstjórinn kemur niðurstöðum borðsins til úrvinnslu.

Hvaða umræðuefni verða tekin fyrir á fundinum?

Viðfangsefni fundarins eru stjórnarskrármálefni. Umræður við hvert borð fara eftir áhuga manna þar. Í byrjun leggur borðstjóri til almennt efni til að hefja umræður, en eftir það þróast þær sjálfkrafa með mismunandi hætti við hvert borð.

Hvað gerir stjórnlaganefndin?

Stjórnlaganefnd var skipuð á fundi Alþingis 16. júní 2010 samtímis lögum um Stjórnlagaþing. Nefndinni er ætlað að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni, vinna úr upplýsingum og afhenda stjórnlagaþingi.

Nefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.

Hvað gerir undirbúningsnefndin?

Þriggja manna undirbúningsnefnd er ætlað að undirbúa stofnun og starfsemi Stjórnlagaþings ásamt undirbúningi þjóðfundarins. Þá er undirbúningsnefndinni ætlað að undirbúa kynningu á starfsemi þingsins, setja upp vefsíðu þess, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna þingsins.

Hvað er Stjórnlagaþing?

Í lögum frá Alþingi nr. 90/2010 er gert ráð fyrir, að sérstakt Stjórnlagaþing komi saman til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Skal það skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúum kosnum persónukosningu og er landið þá eitt kjördæmi.

Stjórnlagaþing kemur saman í febrúar 2011 og stendur til 15. apríl (skv. lögunum gæti þingið orðið styttra og mögulega má framlengja starfstíma þess um allt að tvo mánuði). Þinginu er ætlað að semja frumvarp til stjórnskipunarlaga og skal það sent Alþingi til meðferðar samkvæmt ákvæðum núgildandi stjórnarskrár.

Hugtakið Stjórnlagaþing er ekki fastmótað en eins og nafnið gefur til kynna hefur slíkt þing það hlutverk að semja ný stjórnlög eða reglur um stjórnskipun ríkis eða breyta þeim sem fyrir eru og þar sitja venjulega þjóðkjörnir fulltrúar, oftast af þjóðþingum. Slík þing hafa verið haldin víða um heim á ýmsum tímum sögunnar og marka gjarnan upphaf að stofnun nýrra ríkja eða nýjum stjórnarháttum í ríki í kjölfar stríðsátaka, byltinga eða niðurbrots í þjóðfélagsskipan og stjórnlagakreppu sem myndast hefur í kjölfarið.

Markmið Stjórnlagaþings er að undirstrika þær stoðir hvers lýðræðisþjóðfélags að allt vald spretti frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þessum þjóðkjörnu fulltrúum er falið að setja þær grundvallarreglur sem gilda um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, uppsprettu ríkisvalds, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk.

Hvenær fór kosning til Stjórnlagaþings fram?

Kosning til stjórnlagaþings fór fram 27.nóvember 2010 og var landið eitt kjördæmi. Frekari upplýsingar um fyrirkomulag kosninganna má finna á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins

Getur frumvarp Stjórnlagaþingsins breyst í meðferð Alþingis?

Frumvarpið getur breyst í meðförum Alþingis. Hin endurskoðaða stjórnarskrá verður að lúta lagafyrirmælum núgildandi stjórnarskrár og samkvæmt henni hefur Alþingi síðasta orðið í tveimur afgreiðslum með kosningum á milli.

Ég er búsett á Húsavík en með lögheimili í Garðabæ, fæ ég þá ferðaþóknun?

Nei við miðum við lögheimili fólks því samkvæmt lögum nr. 73/1952 á lögheimili fólks að vera þar sem búseta þess er.

Hvernig er ferðaþóknunin reiknuð?

Ferðaþóknunin er kr. 30.- fyrir hvern km frá heimili viðkomandi að mörkum höfuðborgarsvæðisins (fram og til baka). Það er síðan hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann ferðast á fund og til baka. Ef þátttakandi kýs að fljúga til Reykjavíkur og til baka þá á þóknunin að duga fyrir almennu flugfargjaldi og vel það, einkum ef flugið er pantað snemma.